20130902-Raufarh._sumar_67_KH_ungur_mjö

Heimir Kristinsson (f. 22.06.1940) hefur frá unga aldri verið áhugaljósmyndari auk þess sem hann starfaði sem blaðamaður og ljósmyndari í nokkur ár. Myndasafn hans telur þúsundir mynda, sem miðlað er að hluta hér á þessari síðu.

 

Í sýningarskrá ljósmyndasýningar á verkum Heimis, sem haldin var í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík dagana 7. mars til 2. apríl 2020, skrifar Atli Rúnar Halldórsson sveitungi hans:
 

„Þarna sannaðist enn einu sinni hve miklum verðmætum þeir skila til síðari kynslóða sem höfðu myndavélar innan seilingar þar þeir sem fóru um og skráðu í gegnum linsurnar viðburði, mannlíf, atvinnulíf og hvaðeina sem á vegi þeirra varð. Margt sem var hluti tilverunnar þá er horfið nú, til dæmis eru vinnubrögð á fiskiskipum mjög breytt frá því sem sést á myndum Heimis í túrum með Björgúlfi EA forðum. Mjólkurbrúsar eru horfnir úr fjósum í Svarfaðardal, gömlu mjólkurtrukkarnir komnir í brotajárn og mjólkurflutningar á ýtusleðum í sveitinni heyra líka sögunni til. Allt lifir þetta samt á myndum Heimis og varðveitist sem minningar um ókomna tíð.

 

Gleymum ekki karakterum sem horfnir eru fyrir hornið. Ég nefni ógleymanlega mynd af Kristi Jónssyni (Kidda Rommel) á skellinöðrunni með kassa aftan við sig. Skósmiður með heimsendingarþjónustu! Kiddi sótti skó og skilaði aftur að viðgerð lokinni. Þarna frysti Heimir Kristinsson ákveðið augnablik í samfélagi Dalvíkur.

Þetta virðist vera svo einfalt en það verður að hafa auga fyrir myndefninu og það hefur Heimir. Ljósmyndasafnið hans er menningarsjóður svarfdælskrar byggðar og nú er um að gera að njóta þess sem fyrir augu ber.“

 

Njótið!